Vefurinn

Verkefnið

Verkefnið er 30 eininga lokaverkefni í Hagnýtri þjóðfræði og samanstendur af ritgerð og vefsíðu. Ég lagði af stað í þessa vegferð uppfull af hugmyndum og draumum. Vefsíðan átti að sýna brot af samfélaginu í Reykhólahreppi, hvernig fólk býr þarna, hvað gerir það, borðar, áhugamál og störf? Hvers vegna býr það þarna? Hverjar eru þjóðsögur þeirra, þjóðhættir og þjóðlíf. Fljótt varð mér ljóst að til þess að geta einhvern tíma klárað svona verkefni yrði ég að sníða mér mun þrengri stakk en ég hafði ætlað því í raun og veru er alltaf hægt að bæta við sögum, myndskeiðum, fleiri viðmælendum því margir hafa merkilega sögu að segja eða geta deilt minningum sínum með okkur hinum. Ég ákvað að reyna að að tala við fólk víðsvegar um hreppinn, úr þorpinu, innsveitinni, eyjunum og fjörðunum og eins að tala við fólk á ýmsum aldri. Von mín er að vefsíðan muni dafna í framtíðinni og við hana muni bætast margar sögur og myndskeið. Í ritgerðinni fjalla ég um það sem ekki kemur fram á vefsíðunni, ég lýsi hreppnum, staðháttum og fólki. Ég ræði m.a. um samfélög, hópa og samgöngur, bæði vegi og netsamgöngur. Það er margs að þakka og ber þar hæst viðmælendum mínum sem gerðu þetta verkefni að raunveruleika. Það eru þeir sem gæddu viðtölin lífi og deildu hlut af sér með okkur hinum. Einnig vil ég þakka leiðbeinanda mínum Ólafi Rastrick fyrir góð ráð, vinsemd, virðingu og mjög góða leiðsögn og íslenskukennurunum Auði Ásgrímsdóttur og Ýri Þórðardóttur fyrir yfirlestur. Bertha Guðrún Kvaran og Jay C. Burton fá miklar þakkir fyrir ómetanlega hjálp við gerð vefsíðunnar og að lokum vil ég þakka börnum mínum, þeim Alexöndru, Áróru, Jakobi og Júlíu fyrir ómælda þolinmæði og umburðarlyndi þegar mamman hefur hvorki sinnt þeim né móðurhlutverkinu vegna viðtala, vefsíðugerðar eða ritgerðarskrifa. Takk öllsömul fyrir að hjálpa mér við að gera þennan draum að veruleika. Þið eruð ómetanleg.