Vefurinn

Aðdragandi

Sumarið 2014 réð ég mig í sumarvinnu vestur á Reykhóla á litla sýningu og kaffihús sem heitir Báta- og hlunnindasýningin. Hvers vegna Reykhólar? Jú, ég er ættuð í föðurætt úr Reykhólahreppi, afi var úr Þorskafirði og amma úr Flatey í Breiðafirði og hef ég í gegnum tíðina dvalið í sumarbústað foreldra minna „Kríunni“ í Þorskafirði og skotist í búð og sund á Reykhóla. Ég vissi að ég ætti skyldmenni í hreppnum en þekkti fáa. Þegar ég hóf störf á sýningunni þá var mér vel tekið og ég fann að ég var sérstaklega velkomin vegna tengsla minna við hreppinn. Svo fór að mér var boðin kennarastaða við grunnskólann ásamt íbúð og eftir stutta umhugsun og von um betri tíð flutti ég með yngri börnin mín tvö úr Mosfellsbæ og vestur á Reykhóla. Þegar ég kom vestur kviknaði fljótlega sú hugmynd að vinna lokaverkefni sem vefsíðu um samfélagið í Reykhólahreppi.
Ég tel vefsíðuformið kjörið til að koma stemningu Reykhólasamfélagsins á framfæri.
Þetta er lifandi form, hægt er að lagfæra, breyta og bæta við eftir þörfum og áhorfandinn getur hlustað á og skoðað innihaldið eftir áhuga og þegar hann vill. Hann getur verið staðsettur hvar sem er í heiminum, jafnvel bara með símann sinn. Það eina sem þarf er tæki með nettengingu. Markmið mitt með verkefninu er að fanga stemningu og staðaranda Reykhólahrepps og staðarkennd fólksins sem býr þar eða bjó áður. Hvers vegna vill fólk búa í þessu samfélagi? Hvaða sögur, minningar og reynsla tengir íbúana í hreppnum og ekki bara þá sem hafa fasta búsetu á svæðinu heldur einnig þá sem eru brottfluttir af ýmsum ástæðum en hugsa um Reykhólahrepp sem staðinn sinn og þegar þeir hugsa „heim“ þá er það einhver staður í Reykhólahreppi sem fær hjartað til að slá.
Með því að taka myndbandsviðtöl við fólkið í stað hefðbundins viðtals næ ég að fanga augnablikið betur, áhorfandinn fær að „þreifa“ á stemningunni og sjá allt sem var til staðar þegar viðtalið var tekið og getur virkjað fleiri skynfæri við áhorf. Ekki er alltaf hægt að fanga glettnina, brosið, angurværðina eða jafnvel sorgina í orðum á prenti en það er hægt á myndbandi. Eins má segja að viss skrásetning fari fram sjónrænt; tíska, heimilisbúnaður, hár og klæðnaður. Vefsíðan verður þannig safn af mismunandi minningum, sögum og frásögnum á mismunandi formi.