Indíana Svala Ólafsdóttir, eða Inda eins og hún er alltaf kölluð er fædd 22. janúar 1950 á Ásvallagötu 50 í Reykjavík. Inda er alin upp á Hólmi við Heiðmörk frá 4 ára aldri og var húsið þeirra nefnt Bakkakot og var grasbýli. Hún er þriðja í röðinni af 5 systkinum og gekk í Árbæjarskóla þar til hún varð 10 ára og fór síðan í Miðbæjarskólann til 12 ára aldurs. Síðan lá leiðin í Laugarnesskólann þar sem henni líkaði engan veginn og þar með lauk formlegri grunnskólagöngu Indíönu. Hún fór í húsmæðraskólann á Staðarfelli 15 ára og síðan taka örlögin líf Indu í sínar hendur þegar hún ákveður sumarið 1965 að heimsækja vinkonu sína vestur á Króksfjarðarnes (í Reykhólahreppi)og svo fór að Inda ílengdist. Hún fékk vinnu í kaupfélaginu sem þá var í Króksfjarðarnesi og tók svo við vinnu vinkonunnar þegar hún fór aftur suður. Þá var Inda orðin ástfangin af sínum kæra Erlingi og ekki var aftur snúið og hefur hún síðan búið á Reykhólum. Hjarta Indíönu liggur hjá dýrunum og hefur hún verið hobbybóndi í fjöldamörg ár, hún á 52 ær, 4 hrúta, 4 hesta, nokkrar hænur og 3 hana telur hún upp stolt.
Jón Erlingur Jónsson, yfirleitt kallaður Erlingur en einstaka sinnum Elli, er fæddur í Skálanesi þann 12. juní 1938. Erlingur er sonur hjónanna Jóns Jónssonar og Ingibjargar Jónsdóttur og er fimmti í röðinni af átta systkinum. Hann átti heima á Skálanesi fram yfir fermingu en fór þá að vinna sem vörubílsstjóri á Króksfjarðarnesi og hefur starfað sem bílstjóri alla tíð, séð um snjómokstur fyrir vegagerðina á veturna og vegavinnu á sumrin.
Inda og Erlingur byrjuðu að búa þann 6. júní 1967 á Tilraunastöðinni á Reykhólum eins og húsið er alltaf kallað, þetta voru u.þ.b. 35 fermetrar og þrátt fyrir að þarna bjuggu þau hjónin með þrjú börn, Birnu, Ólaf Þór og Ingibjörgu, þá voru oft næturgestir og fór vel um alla. Þarna bjó fjölskyldan í 10 ár, byggðu sér hús að Hellisbraut 16 og fluttu þangað inn 22. desember 1977 og búa þar ennþá.