Vilberg Þráinsson er fæddur 10. apríl 1979 að Kletti í Reykhólasveit. Hann er sonur hjónanna Þráins Hjálmarssonar frá Reykjavík og Málfríðar Vilbergsdóttur frá Kópavogi en þau búa bæði á Hríshóli í Reykhólahreppi. Vilberg er elstur fjögurra systkina. Hann er alinn upp á Kletti og eftir nokkur ár á höfuðborgarsvæðinu þá ákváðu hann og kona hans, Katla Ingibjörg Tryggvadóttir ásamt foreldrum hans að kaupa Hríshól og stofna þar félagsbú. Hríshóll er staðsettur í svokallaðri Innsveit Reykhólahrepps, ekki langt frá afleggjaranum að Reykhólaþorpinu. Vilberg er rafvirki að mennt en starfar sem bílstjóri hjá Reykhólaskóla, hann sér um akstur skólabarna til og frá skólanum. Vilberg og Katla eru sauðfjárbændur og stunda félagsbú ásamt foreldrum Vilbergs, þeim Þráni og Málfríði. Þau eru með 900-1000 á fóðrum á veturna, nokkra hesta, hund og kött.
Katla Ingibjörg Tryggvadóttir er fædd 14. febrúar 1980 á Drangsnesi í Strandasýslu. Hún er dóttir hjónanna Tryggva Ingvars Ólafssonar frá Vopnafirði og Ragnhildar Rúnar Elíasdóttur frá Drangsnesi á Ströndum þar sem þau búa bæði. Katla á tvo bræður og er hún í miðjunni.
Þau Vilberg og Katla giftu sig 2008 og eiga 3 dætur, Elísu Rún, 10 ára, Bergrós, 7 ára og Málfríði 4 ára. Þeim hjónunum finnst mjög gott að búa í Reykhólahreppi, helstu kostirnir séu rólegheitin, minna stress og svo er bara svo skemmtilegt fólk hérna. Þau segja að þau þekki nágrannana og nærsamfélagið mun betur í svona litlu samfélagi.