• Reykhólahreppur
  • Vefurinn
  • Viðmælendur
  • Vettvangsferð
  • Börnin
  • Brasað og brallað
  • Huldufólkssögur o. fl.
  • Myndir

Aðdragandi

  • Print

Sumarið 2014 réð ég mig í sumarvinnu vestur á Reykhóla á litla sýningu og kaffihús sem heitir Báta- og hlunnindasýningin. Hvers vegna Reykhólar? Jú, ég er ættuð í föðurætt úr Reykhólahreppi, afi var úr Þorskafirði og amma úr Flatey í Breiðafirði og hef ég í gegnum tíðina dvalið í sumarbústað foreldra minna „Kríunni“ í Þorskafirði og skotist í búð og sund á Reykhóla. Ég vissi að ég ætti skyldmenni í hreppnum en þekkti fáa. Þegar ég hóf störf á sýningunni þá var mér vel tekið og ég fann að ég var sérstaklega velkomin vegna tengsla minna við hreppinn. Svo fór að mér var boðin kennarastaða við grunnskólann ásamt íbúð og eftir stutta umhugsun og von um betri tíð flutti ég með yngri börnin mín tvö úr Mosfellsbæ og vestur á Reykhóla. Þegar ég kom vestur kviknaði fljótlega sú hugmynd að vinna lokaverkefni sem vefsíðu um samfélagið í Reykhólahreppi.
Ég tel vefsíðuformið kjörið til að koma stemningu Reykhólasamfélagsins á framfæri.
Þetta er lifandi form, hægt er að lagfæra, breyta og bæta við eftir þörfum og áhorfandinn getur hlustað á og skoðað innihaldið eftir áhuga og þegar hann vill. Hann getur verið staðsettur hvar sem er í heiminum, jafnvel bara með símann sinn. Það eina sem þarf er tæki með nettengingu. Markmið mitt með verkefninu er að fanga stemningu og staðaranda Reykhólahrepps og staðarkennd fólksins sem býr þar eða bjó áður. Hvers vegna vill fólk búa í þessu samfélagi? Hvaða sögur, minningar og reynsla tengir íbúana í hreppnum og ekki bara þá sem hafa fasta búsetu á svæðinu heldur einnig þá sem eru brottfluttir af ýmsum ástæðum en hugsa um Reykhólahrepp sem staðinn sinn og þegar þeir hugsa „heim“ þá er það einhver staður í Reykhólahreppi sem fær hjartað til að slá.
Með því að taka myndbandsviðtöl við fólkið í stað hefðbundins viðtals næ ég að fanga augnablikið betur, áhorfandinn fær að „þreifa“ á stemningunni og sjá allt sem var til staðar þegar viðtalið var tekið og getur virkjað fleiri skynfæri við áhorf. Ekki er alltaf hægt að fanga glettnina, brosið, angurværðina eða jafnvel sorgina í orðum á prenti en það er hægt á myndbandi. Eins má segja að viss skrásetning fari fram sjónrænt; tíska, heimilisbúnaður, hár og klæðnaður. Vefsíðan verður þannig safn af mismunandi minningum, sögum og frásögnum á mismunandi formi.



Verkefnið

  • Print

Verkefnið er 30 eininga lokaverkefni í Hagnýtri þjóðfræði og samanstendur af ritgerð og vefsíðu. Ég lagði af stað í þessa vegferð uppfull af hugmyndum og draumum. Vefsíðan átti að sýna brot af samfélaginu í Reykhólahreppi, hvernig fólk býr þarna, hvað gerir það, borðar, áhugamál og störf? Hvers vegna býr það þarna? Hverjar eru þjóðsögur þeirra, þjóðhættir og þjóðlíf. Fljótt varð mér ljóst að til þess að geta einhvern tíma klárað svona verkefni yrði ég að sníða mér mun þrengri stakk en ég hafði ætlað því í raun og veru er alltaf hægt að bæta við sögum, myndskeiðum, fleiri viðmælendum því margir hafa merkilega sögu að segja eða geta deilt minningum sínum með okkur hinum. Ég ákvað að reyna að að tala við fólk víðsvegar um hreppinn, úr þorpinu, innsveitinni, eyjunum og fjörðunum og eins að tala við fólk á ýmsum aldri. Von mín er að vefsíðan muni dafna í framtíðinni og við hana muni bætast margar sögur og myndskeið. Í ritgerðinni fjalla ég um það sem ekki kemur fram á vefsíðunni, ég lýsi hreppnum, staðháttum og fólki. Ég ræði m.a. um samfélög, hópa og samgöngur, bæði vegi og netsamgöngur. Það er margs að þakka og ber þar hæst viðmælendum mínum sem gerðu þetta verkefni að raunveruleika. Það eru þeir sem gæddu viðtölin lífi og deildu hlut af sér með okkur hinum. Einnig vil ég þakka leiðbeinanda mínum Ólafi Rastrick fyrir góð ráð, vinsemd, virðingu og mjög góða leiðsögn og íslenskukennurunum Auði Ásgrímsdóttur og Ýri Þórðardóttur fyrir yfirlestur. Bertha Guðrún Kvaran og Jay C. Burton fá miklar þakkir fyrir ómetanlega hjálp við gerð vefsíðunnar og að lokum vil ég þakka börnum mínum, þeim Alexöndru, Áróru, Jakobi og Júlíu fyrir ómælda þolinmæði og umburðarlyndi þegar mamman hefur hvorki sinnt þeim né móðurhlutverkinu vegna viðtala, vefsíðugerðar eða ritgerðarskrifa. Takk öllsömul fyrir að hjálpa mér við að gera þennan draum að veruleika. Þið eruð ómetanleg.

Höfundur verkefnisins

  • Print

Anna Björg

Ég heiti Anna Björg Ingadóttir og er fædd 29.07.1965, dóttir hjónanna Kristrúnar G. Gestsdóttur og Inga Bergþórs Jónasarsonar og er önnur í röðinni af 4 systkinum sem heita; Jónas Rafnar, búsettur í  Noregi, Óskar Ingi, búsettur í Ólafsvík og Fanney Kristrún, búsett í Noregi. Ég á ættir að rekja í móðurætt til Reykjavíkur og Færeyja og í föðurætt til Reykhólahrepps; Flateyjar í Breiðafirði og Þorskafjarðar. 

Ég á 5 börn; Alexöndru Ýrr, Áróru Eir, Jakob Borgar, Júlíu Rún og stjúpsoninn Bjarka Þór, 2 tengdasyni; Eirík og Hilmar og lítinn ömmuling sem heitir Sæmundur Freyr.

Ég er grunnskólakennari og og er í mastersnámi í hagnýtri þjóðfræði og er þessi vefsíða hluti af lokaverkefninu.

Höfundarréttur © 2023 | Allur réttur áskilinn. | Anna Björg Ingadóttir
YJSimpleGrid Joomla! Templates Framework official website
Vefurinn