Tindur Ólafur Guðmundsson er fæddur 2. júní 2003, Ketill Ingi Guðmundsson er fæddur 12. janúar 2005 og Kristján Steinn Guðmundsson er fæddur 10. desember 2007. Bræðurnir eru synir Guðmundar Ólafssonar frá Grund í Reykhólahreppi og Ástu Sjafnar Kristjánsdóttur frá Reykjavík. Þeir eiga heima á Litlu-Grund sem er staðsett rétt fyrir utan Reykhólaþorpið og á Grundarbýlinu býr föðurbróðir þeirra sem er sauðfjárbóndi og taka strákarnir mikinn þátt í öllum verkum á býlinu og eiga þeir allir eitthvað sauðfé sjálfir. Þeir bræður eru nemendur í Reykhólaskóla. Ketill Ingi sagði að það væri alveg geggjað að búa í Reykhólahreppi og samsinntu hinir tveir því. Skemmtilegast væri að þekkja alla sem eiga heima á svæðinu og svo er alls staðar hægt að leika. Dýrin eru samt það skemmtilegasta við að búa í sveit eru þeir allir sammála um. Þeim finnst ekkert leiðinlegt við að eiga heima í sveit, Ketill Ingi sagðist ómögulega muna nokkuð sem væri leiðinlegt við það og þá sagði Kristján Steinn að það væri eiginlega bara leiðinlegt að vera veikur í sveitinni því þá fái maður ekki að fara út. Tindi finnst smalamennskan langskemmtilegust, Ketill er hrifinn af bæði sauðburði og leitum en Kristjáni finnst sauðburður langskemmtilegastur. Þeir eiga allir nokkrar rollur og síðan eru hænur, hundur og svín á heimilinu. Svínin eru nýkomin og Kristján fræddi mig mjög ákafur um að þessi svín væru fyrir fermingarveisluna hans Tinds og svo líka fyrir jólin. Bræðurnir eru sammála um að það sé fámennið í sveitinni sem heilli mest. Tindi finnst skemmtilegast að keyra dráttarvélina og fjórhjól, Katli og Kristjáni finnst skemmtilegast að hjóla og fara til vina sinna.
lightbox[640 360]Uppáhaldsstaðurinn lightbox[640 360]Best að búa í sveit lightbox[640 360]Tindur á fjórhjóli